Edinson Cavani, framherji Manchester United, er óánægður hjá félaginu ef marka má orð föður hans Luis og framherjinn vill fara frá Manchester eftir tímabilið. Mirror greindi frá.
Luis Cavani, faðir Edinson Cavani, segir að sonur sinn vilji snúa til Suður-Ameríku og ganga til liðs við Boca Juniors í Argentínu.
„Syni mínum líður ekki vel í Englandi og vill vera nær fjölskyldu sinni. Edinson mun enda á því að spila í Suður-Ameríku,“sagði Luis Cavani við TyC Sports.
Luis segir að sonur sinn hafi átt samræður við forráðamenn Boca Juniors um möguleg félagsskipti.
„Um mitt ár mun hann snúa aftur til Suður-Ameríku. Það er ekki í áætlunum Edinson að vera áfram í Englandi,“ sagði Luis Cavani faðir Edinson Cavani.
Cavani gekk til liðs við Manchester United í október áríð 2020 á frjálsri sölu og hefur gert góða hluti þar.
Hann hefur spilað 25 leiki, skorað sjö mörk og gefið tvær stoðsendingar.