Joachim Löw mun í sumar láta af störfum sem þjálfari þýska landsliðsins, samningur hans var í gildi til ársins 2022 en hann bað um að hætta í sumar.
Löw mun stýra þýska landsliðinu í undankeppni HM eftir rúmar tvær vikur gegn Íslandi. Hann mun hins vegar láta af störfum eftir Evrópumótið í sumar.
Margir stuðningsmenn Liverpool urðu smeykir við þessi tíðindi enda vill almenningur í Þýskalandi fá Klopp til starfa. Þýski stjórinn hefur hins vegar útilokað að taka við í sumar.
Klopp er með samning til ársins 2024 við Liverpool og þrátt fyrir brösugt gengi í vetur ætlar hann sér að halda áfram.
„Ég verð ekki í boði í sumar til að gerast næsti þjálfari Þýskaland,“ sagði Klopp þegar hann var spurður um málið í dag.
„Ég á þrjú ár eftir af samningi mínum er það ekki? Þetta er einfalt, þú skrifar undir samning og stendur við hann.. Ég virti samninga mína hjá Mainz og Dortmund.“