Sjónvarpsþáttur 433.is verður á dagskrá á Hringbraut klukkan 21:30 í kvöld en þátturinn birtist á sama tíma á vefnum og á samfélagsmiðlum.
Í þætti kvöldsins verður Viðar Halldórsson formaður FH í spjalli, Viðar liggur ekki á skoðunum sínum þegar kemur að stöðu íslenska fótboltans.
Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari Al-Arabi í Katar verður svo á línunni og ræðir um lífið í sólinni. Heimir Hallgrímsson er þjálfari liðsins og Aron EInar Gunnarsson spilar með liðinu.
Liðið mætti Al-Sadd, besta liði Katar á dögunum en Aron Einar gat ekki spilað leikinn. Hann meiddist í upphitun en Al-Arabi var grátlega nálægt því að vinna leikinn.
„Ég get alveg sagt það við íslenskan fjölmiðil að ef Aron Einar Gunnarsson hefði verið inni á vellinum, þá hefðum við lokað þessum leik,“ segir Freyr í þætti kvöldsins. Al-Arabi var með 2-1 forystu þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna en Al-Sadd skoraði tvö mörk í uppbótartíma og stal sigrinum.
Aron hafði fest í hálsinum í upphitun
„Hann festist í hálsinum, hann er samt alltaf með sinn eigin kodda á hótelinu. Hann festist í upphitun, Aron er hrikalega mikilvægur fyrir okkur og er í þrusu standi. Við finnum mjög mikið fyrir því þegar hann er ekki með,“ sagði Freyr um landsliðsfyrirliðann.
Í lok þáttar verður það svo Benedikt Bóas Hinriksson blaðamaður á Fréttablaðinu sem kemur og ræðir stöðu Liverpool.