BBC skýrir frá þessu og segir að meðal þess sem komi fram í leiðbeiningunum sé að bólusett fólk geti nú hitt annað bólusett fólk án þess að nota andlitsgrímur og gæta að fjarlægðarmörkum. Það þykir óhætt fyrir þetta fólk að umgangast óbólusett fólk, þó aðeins frá einu heimili, ef það er ekki í mikilli hættu á að veikjast alvarlega ef það smitast af veirunni. Þá getur bólusett fólk sleppt því að fara í sýnatöku og sóttkví nema það finni fyrir einkennum kórónuveirusmits.
„Við erum einfaldlega byrjuð að lýsa því hvernig heimurinn lítur út þegar við komumst út úr faraldrinum,“ hefur BBC eftir Andy Slavitt, ráðgjafa hjá smitsjúkdómastofnuninni.
Bólusetningum fer nú fjölgandi eftir því sem meira magn bóluefnis er til ráðstöfunar. Þar munar mikið um bóluefnið frá Johnson & Johnson en aðeins þarf einn skammt af því en af öðrum bóluefnum, sem hafa verið samþykkt til notkunar, þarf tvo skammta.
En það er of snemmt að fagna sigri yfir veirunni í Bandaríkjunum því enn á eftir að bólusetja um 90% þjóðarinnar.