Tvítugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir röð ofbeldisverka og brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist á lögreglumann innan í lögreglubifreið.
Maðurinn er í ákærunni sagður þann 30. desember 2017 hafa ráðist á lögreglukonu er hann sat í aftursæti lögreglubifreiðar sem staðsett var fyrir utan heimilið sitt. Hann var þá 17 ára gamall.
Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa í desember 2018, þá 18 ára gamall, skallað 19 ára gamlan mann í andlitið með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut „innkýlt“ nefbrot vinstra megin.
Loks er maðurinn ákærður fyrir að hafa gengið berserksgang á Draugasetrinu á Stokkseyri sumarið 2019 og ráðist þar á þrjá einstaklinga með höggum og spörkum. Mun hann hafa fyrst hring 25 ára gamalli konu aftur fyrir sig þannig að hún lenti á borði sem þar stóð. Í sömu andrá mun maðurinn hafa veist að 19 ára gamalli konu og slegið hana í andlitið þannig að hún hlaut roða á andlitið. Loks veittist maðurinn að jafnaldra sínum, 18 ára gömlum manni og kýldi í andlit.
Fyrir allt þetta er maðurinn ákærður fyrir þrjár líkamsárásir, eina alvarlega líkamsárás og svo loks brot gegn valdstjórninni.
Ákæra Héraðssaksóknara verður þingfest á morgun, þriðjudag, í Héraðsdómi Reykjavíkur.