Engar tilkynningar hafa borist frá lögreglu eða slökkviliði um fjöldaáreksturinn sem varð á Reykjanesbraut í gær á mörkum Breiðholts og Kópavogs. Sjö bílar munu hafa lent í árekstrinum, en ekki sex, eins og áður var greint frá. Mjög erfitt hefur einnig reynst að ná í fulltrúa lögreglu og slökkviliðs vegna málsins um helgina.
Tveir bílar fóru verst úr árekstrunum. Kona keyrði inn í hlið bíls sem í var karlmaður. Slasaðist hann lítillega, var fluttur á slysadeild, og hafði töluverða verki. Heimildir um þetta koma frá konu sem hafði samband við DV vegna málsins, í þeim tilgangi að koma réttum upplýsingum um atvikið á framfæri. Kom hún á vettvang til að sækja bíl sinn en ökumaðurinn er fyrrverandi eiginmaður hennar og var með bílinn í láni. Hafði maðurinn samband við hana símleiðis og greindi henni frá árekstrinum. Maðurinn fékk að fara heim af slysadeild í gær.
Konan fékk einnig upplýsingar um það á vettvangi að sex ára stúlka hefði einnig slasast. Allt bendir til að meiðsli hennar hafi verið minniháttar.
Gífurlegar tafir urðu á umferð vegna árekstursins. Auk bílanna tveggja lentu fimm bílar aðrir í árekstri í kjölfarið en skemmdust lítið. Konan segir að hennar bíll sé nokkuð beyglaður en þó ökufær eftir slysið.