Rangers er hársbreidd frá því að vinna skosku deildina. Ef Celtic tekst ekki að vinna sinn leik í dag gegn Dundee United, vinnur Rangers sinn fyrsta titil síðan árið 2011.
Rígurinn er mikill milli þessara tveggja stærstu liða Skotlands. Celtic hefur unnið titilinn níu tímabil í röð en nú virðist sigurganga þeirra á enda.
Til þess að strá salti í sárin létu stuðningsmenn Rangers flugvél fljúga með borða yfir völlinn þar sem Dundee og Celtic spila nú á. Á borðanum stóð „Sjáið þið okkur núna?“
Ef Celtic vinnur sinn leik í dag getur Rangers tryggt sér titilinn á heimavelli Celtic í næstu umferð þegar liðin mætast.
Rangers spilar undir stjórn Steven Gerrard og hefur verið á mikilli siglingu á tímabilinu, liðið er með örugga forystu í deildinni og aðeins tímaspursmál hvenær liðið tryggir sér titilinn.