fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Besta vonda mynd allra tíma

Ofleikið drama sem hefur öðlast goðsagnakennda stöðu – Þátttökusýning á The Room í Bíó Paradís

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 22. janúar 2016 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rómantíska dramakvikmyndin The Room er af mörgum talin ein versta mynd allra tíma. „Citizen Kane vondu myndanna,“ sagði einn kvikmyndafræðingur. Þegar myndin var fyrst sýnd í Los Angeles árið 2003 gerðist það ósjaldan að áhorfendur gengu út og báðu um endurgreiðslu – eða svo segir sagan. Myndin hefur þrátt fyrir þetta (eða kannski einmitt þess vegna) öðlast goðsagnakennda stöðu í jaðarkvikmyndaheiminum og nýtur sífellt meiri vinsælda meðal költmyndanörda.

Bíó Paradís stendur fyrir sérstakri þátttökusýningu á The Room föstudaginn 22. janúar og aftur viku síðar. DV ræddi við Gunnar Tómas Kristófersson kvikmyndafræðing um The Room, dularfulla kvikmyndagerðarmanninn Tommy Wiseau og töfrana sem gera myndina svo stórkostlega vonda.

Snilldarlega órökrétt

The Room er rómantískt drama um bankamanninn og öðlinginn Johnny sem lifir góðu lífi þar til eiginkona hans fer að halda við besta vin hans, Mark. „Planið var að gera alvöru bandaríska epík og innblásturinn var fenginn frá Tennessee Williams og Rebel Without a Cause,“ segir Gunnar Tómas um myndina.

En margt vantaði upp á til að hún næði sama klassa og þessar myndir. Sagan þykir léleg, hin fjölmörgu ljósbláu ástaratriði fáránleg, samtölin tilgerðarleg og handritið hræðilega gloppótt ef ekki óskiljanlegt. Þó að sagan innihaldi harmræna þætti, eins og krabbamein, eiturlyf og þunganir, gleymast þeir þó fljótt og hafa sjaldnast áhrif á framvinduna, jafnvel persónur hverfa sporlaust úr myndinni.

Útlitið er ekki skárra en notast var við viðvaningslega sviðsmynd og síendurtekin skot af Golden Gate-brúnni til að sýna að atburðirnir gerðust í San Francisco. Rúsínan í pylsuendanum er hörmulegur ofleikur aðalleikarans, handritshöfundarins, leikstjórans og framleiðandans Tommys Wiseau. En í þessari súpu glappaskota varð eitthvað einstakt til. „Allt sem hann gerir er órökrétt á einhvern snilldarlegan máta,“ segir Gunnar Tómas um Wiseau.

Góðar vondar myndir

Góðar vondar myndir

Gunnar Tómas segir The Room smellpassa inn í ákveðna hefð kvikmyndanna sem mætti kalla góðar vondar myndir.

„Þetta eru myndir sem eru svo vondar að það verður upplifun að horfa á þær, og því verða þær góðar. Yfirleitt sér maður ekki í gegnum fantasíuna í kvikmyndum, en í svona myndum sér maður þessi tengsl raunveruleikans og fantasíunnar hrynja. Fólk fer að njóta þess að sjá í gegnum blekkinguna. Í gegnum mistökin benda þessr myndir á sama tíma á ákveðna galla og snilld í menningu okkar. Þá fer fólk líka að fagna því lélega. Það skiptir máli fyrir költmyndir að hafa ákveðið goðsögulegt gildi. Þarna er fólk með sýn sem er næstum því óskiljanleg og Tommy Wiseau smellpassar inn í þessa hefð,“ segir Gunnar.

„Birdemic og Troll 2 eru dæmi um slíkar myndir en svo er leikstjórinn Ed Wood náttúrlega ókrýndur konungur slíkra mynda, en hann gerði meðal annars Plan9 from outer space og Glen and Glenda á sjötta áratugnum. Þetta voru mjög vondar myndir sem nutu svo vaxandi vinsælda á sjöunda og áttunda áratugnum.“

Dularfullur furðufugl

Eldhuginn á bak við myndina, Tommy Wiseau, er dularfullur furðufugl með sítt svart hár og risastórt egó, óskýran framburð og óræðan hreim. „Hann gefur ekki upp neinar upplýsingar um sjálfan sig. Hann segist vera frá New Orleans en er líklega Austur-Evrópumaður sem flúði í gegnum Frakkland og til Bandaríkjanna,“ segir Gunnar.

Wiseau er sagður hafa hagnast mikið á sölu gervileðurjakka í San Francisco og notað aleiguna, sex milljónir dollara, til að láta kvikmyndadraum sinn rætast. „En það er samt mjög óljóst hvaðan peningurinn kemur,“ segir Gunnar.
Kenningar um myndina eru margar og ólíkar, en ein áhugaverðasta er að myndin hafi í raun verið gerð til að þvo illa fengið fé – enda virtist fjármagnið sem Wiseau gat lagt fram óendanlegt.

Allt framleiðsluferlið var eins og farsi og fjölmargar sögur, sannar eða lognar, hafa verið sagðar af sérvisku Wiseaus. Þegar myndin var tilbúin leigði Wiseau kvikmyndahús undir myndina og sýndi í tvær vikur – en ef myndir er sýndar svo lengi eru þær gjaldgengar til Óskarsverðlaunanna. Þó að fyrstu viðtökur hafi eflaust verið vonbrigði fyrir Wiseau gat hann varla séð fyrir þá atburðarás sem síðar fór af stað.

„Undir lok sýningartímans var búið að koma upp miða í glugganum sem sagði: „No Refunds!“ og tilvitnun í gagnrýni sem sagði það að horfa á myndina væri eins og að fá hnífstungu í hausinn,“ segir Gunnar Tómas.

Nokkrir ungir kvikmyndaáhugamenn urðu forvitnir, fóru á myndina og fannst drepfyndið hversu misheppnuð hún var. Þeir hófu að breiða út boðskapinn. Myndin vann sér smám saman inn költstöðu í kvikmyndaheiminum og haldnar voru sérstakar þátttökusýningar þar sem áhorfendur tóku virkan þátt í myndinni með hrópum, koddaslag og plastskeiðakasti.

Misskilur mannleg samskipti

En hvað er það við þessa vondu mynd sem gerir hana svona góða?

„Það er til afskaplega mikið af vondum bíómyndum, en flestar þeirra eru bara vondar og leiðinlegar. En það er samansafn af þáttum í þessari mynd sem gera hana á einhvern hátt öðruvísi. Þetta byrjar eflaust allt með djúpstæðum misskilningi Wiseaus á því hvernig bandarísk menning virkar. Það mætti svo skrifa heila heimspekiritgerð um það hvernig hann misskilur og mistúlkar mannleg samskipti. Þetta gerir það að verkum að maður skilur ekkert. Maður mætir í bíó og skilur ekki neitt hvað fólkinu sem gerði myndina gekk til og það gefur henni þessa goðsagnakenndu stöðu,“ segir Gunnar Tómas.

Hróður myndarinnar breiðist stöðugt út og nú eru bandarísku leikararnir James Franco og Seth Rogen að framleiða mynd um Tommy Wiseau þar sem sá fyrrnefndi leikur aðalhlutverkið. Myndin byggir á bókinni Disaster Artist eftir Greg Sestero, sem lék Mark, besta vininn sem stakk undan Johnny í The Room. Wiseau hefur tekið allri athyglinni fegins hendi og heldur því nú fram að hann hafi allan tímann ætlað sér að gera kolsvarta kómedíu, en aðrir þátttakendur í myndinni segja það óumdeilt að hún hafi verið gerð í fúlustu alvöru.

Svona tekur maður þátt

Svona tekur maður þátt

Rakel Ósk Þorgeirsdóttir er á meðal þeirra sem munu veita leiðbeiningar um hvernig hægt sé að taka þátt í sýningunni í Bíó Paradís. DV fékk hana til að nefna nokkur dæmi.

Koddaslagur: „Fólk getur komið með kodda. Þegar það koma koddaslagssenur í myndinni þá fer salurinn líka í koddaslag.“

Plastskeiðakast: „Þegar keyptir voru rammar til að hafa í sviðsmyndinni vildi Tommy Wiseau ekki láta myndir af fólki í rammana heldur halda myndunum sem voru, en það voru myndabankamyndir af plastskeiðum. Þannig að í hvert skipti sem maður sér plastskeiðar í myndinni þá hrópar maður SPOON! og kastar plastskeiðum í tjaldið.“

Fótboltakast: „Í Bandaríkjunum hefur skapast hefð fyrir því að fólk kasti amerískum fótbolta á milli sín meðan á myndinni stendur. En í Danmörku þar sem ég hef tekið þátt í sýningum var seldur bjór og þá þótti of hættulegt að vera að kasta bolta.“

„Because you are a woman!“ „Í atriði þar sem Claudette talar við dóttur sína Lísu og segir að hún sé of ósjálfbjarga til að lifa án eiginmannsins Johnny, þá öskrar allur salurinn: AF ÞVÍ AÐ ÞÚ ERT KONA!“

Hér má nálgast nánari leiðbeiningar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir