Í gærkvöld var tilkynnt um mann í Hafnarfirði sem var að ógna unglingum með hnífi. Lögregla gat ekki fundið manninn þrátt fyrir talsverða leit.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að fjórir menn slógust í Garðabæ. Lögregla hefur fengið upplýsingar um hverjir það voru og geta þeir átt von á kæru.
Maður í Garðabæ í annarlegu ástandi var handtekinn eftir að hafa ekki farið að fyrirmælum lögreglu og ráðist að lögreglumönnum. Hann var einnig með fíkniefni í fórum sínum. Var maðurinn vistaður í fangaklefa.
Lítilsháttar eldur kviknaði í sólpalli í Garðabæ eftir að kerti sem gleymst hafði að slökkva á brann niður. Eldurinn var slökktur og litlar skemmdir urðu.
Tveir menn voru handteknir í Kópavogi eftir að hafa keyrt á ljósastaur. Sögðust þeir báðir vera ökumaðurinn, voru þeir vistaðir í fangaklefa og bíða skýrslutöku.
Tilkynnt var um líkamsárás í Grafarvogi þar sem fjórir menn réðust á einn. Var tekin skýrsla af mönnunum og héldu þeir síðan sína leið.
Ennfremur var brotist inn í skóla í Grafarvogi en ekki er vitað hverju var stolið.
Alls komu 100 mál á borð lögreglu í gærkvöld og nótt, þar af voru 25 hávaðakvartanir.