fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Flokkaflakk fyrr og nú

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 7. mars 2021 19:30

Ólafur Ragnar Grímsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnmálaleg vistaskipti verða æ algengari. Hugmyndafræðileg festa fer þverrandi og sífellt koma fram nýir flokkar. Milli flokka á vinstri vængnum hafa löngum legið greiðfærir vegir. Flakk verið notað mönnum til háðungar.

Clemente Mastella, borgarstjóri Benevento á Ítalíu, hefur átt litríkan feril í stjórnmálum. Hann var ráðherra í ríkisstjórnum Romano Prodi og Silvio Berlusconi og sat á ítalska þinginu fyrir fjóra flokka. Raunar hefur Mastella verið félagi í alls níu stjórnmálaflokkum frá því að hann hóf afskipti af pólitík árið 1976. Einhverju sinni þegar hann var inntur álits á því hvers vegna hann færi svo gjarnan milli flokka vitnaði hann í ljóð chileska Nóbelskáldsins Pablo Neruda þar sem lýst er þörfinni fyrir endurnýjun – skoðanir breytist og þurfi að fá að breytast.

Notað til háðungar

Ef við hverfum hingað heim þá verður þess ekki mikið vart að íslenskir stjórnmálamenn vitni í heimsbókmenntirnar og flokkaflakk hefur fremur verið notað þeim til háðungar er það iðka. Þegar Ágúst Einarsson yfirgaf Þjóðvaka og skráði sig aftur í Alþýðuflokkinn 1997 var hent gaman að því að hann hefði nokkrum dögum áður lýst ævarandi andstyggð sinni á gömlu flokkunum – en Alþýðuflokkurinn sálugi var þeirra elstur, þá áttræður. Seinna átti Ágúst eftir að verða þingmaður Samfylkingar, líkt og sonur hans, Ágúst Ólafur, sem ekki verður í kjöri fyrir þann flokk í kosningunum næsta haust. Hver veit nema kraftar hans kunni að nýtast annars staðar á hinum pólitíska vettvangi.

Skortir á hugmyndafræðilega festu

Mjög hefur dregið úr flokkshollustu undanfarna áratugi og líklega einna hraðast á árunum sem liðin eru frá hruni bankanna. Flokkum hefur snarfjölgað og liðsmenn þeirra hafa æ oftar vistaskipti og það er fráleitt sanngjarnt að kalla það allt flokkaflakk.

Sá sem hér heldur á penna sat um skeið á síðasta kjörtímabili sem varamaður í borgarstjórn. Nokkru eftir klofning Framsóknarflokks hitti ég fulltrúa þess flokks að máli fyrir fund í einni af nefndum borgarinnar og þar sem við stóðum í röð við kaffibrúsann varð mér á að spyrja viðkomandi hvort hann væri ef til vill orðinn Miðflokksmaður. Svarið kom mér á óvart en Framsóknarmaðurinn svaraði: „Tja, ég virðist ekki ætla að fá það brautargengi sem ég ætlaðist til innan Framsóknar svo ég gæti allt eins skipt yfir í Miðflokkinn…“

Ekki mikil flokkshollusta þar og kannski bara tímanna tákn enda sáralítil hugmyndafræðileg festa í íslenskum stjórnmálum. Langflestir starfandi stjórnmálamenn gætu líka hæglega valið úr nokkrum flokkum til að starfa með án þess að teljandi málefnalegur ágreiningur yrði þeim til trafala. Og milli sumra flokka liggja afar greiðfærar brautir.

Vistaskipti á vinstri vængnum

Hér í þessum pistlum hafði því verið spáð í fyrrasumar að Rósa Björk Brynjólfsdóttir yrði komin í framboð fyrir Samfylkinguna áður en yfir lyki, en hún var áður þingmaður VG. Hinn pólitíski flóttamaðurinn úr þingflokki VG, Andrés Ingi Jónsson, ætlar að gefa kost á sér fyrir systurflokk Samfylkingar, Pírata. Þessi tveir flokkar hafa rækilega ruglað saman reytum en meðal nýrra frambjóðenda Samfylkingar er Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata.

Ekki liggja þó leiðir allra af vinstri vængnum yfir til Samfylkingar og Pírata því Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sækist eftir oddvitasæti á lista VG í Suðurkjördæmi. Róbert var á sínum tíma formaður Verðandi, landssamtaka ungra Alþýðubandalagsmanna, og sat á þingi 2009-2016, fyrst fyrir Samfylkinguna, þá var hann utan flokka um tíma og var loks kjörinn á þing fyrir Bjarta framtíð sálugu.

Löngum hefur lítið farið fyrir landamæravörslu milli flokkanna vinstra megin við miðju.

Finna réttu framabrautina

Ekki hefur málefnalegt uppgjör rekið alla af stað í þessum efnum. Ólafur Ragnar Grímsson barðist af hörku fyrir málstað þriggja stjórnmálaflokka sem á endanum skilaði honum formennsku og ráðherraembætti – já og greiddi leið hans að sjálfu forsetaembættinu sem hann gegndi lengur en nokkur annar. Ólafur Ragnar sat í miðstjórn Framsóknarflokksins 1967-1974 en í alþingiskosningum 1974 var hann í framboði fyrir Frjálslynda og vinstrimenn í Austurlandskjördæmi. Hann var síðan kjörinn á þing fyrir Alþýðubandalagið 1978 og aftur 1987 og sat eftir það óslitið á þingi þar til hann var kjörinn forseti 1996.

Annar forseti lýðveldisins, Ásgeir Ásgeirsson, var þingmaður Framsóknarflokks í ellefu ár, eða til ársins 1932, og utan flokka eftir það til 1937 þegar hann fór í framboð fyrir Alþýðuflokkinn og sat á þingi fyrir flokkinn allt þar til hann var kosinn forseti 1952.

Tímanna tákn

Mörg fleiri dæmi má nefna bæði fyrr og nú og í nýjum veruleika stjórnmálanna, hverfandi flokkshollustu, lítilli hugmyndafræðilegri festu og sífellt fleiri flokkum má telja næsta víst að æ fleiri hugsi sér til hreyfings hvort sem skoðanir breytist eða viðkomandi telji frama sínum einfaldlega betur borgið undir nýjum gunnfána. Svo er líka gott að geta viðurkennt fyrir guði og mönnum breytta afstöðu til grundvallarmálefna og óþarft að kenna alla skráningu nýs pólitísks heimilisfangs við vingulshátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange

Óttar Guðmundsson skrifar: Assange
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
21.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland
EyjanFastir pennar
20.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi