Leik Arsenal og Burnley í ensku úrvalsdeildinni var að ljúka rétt í þessu. Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley en Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í hóp hjá Arsenal.
Gaboninn Pierre-Emerick Aubameyang kom Arsenal yfir strax á 6. mínútu leiksins með góðu hægri fótar skoti eftir nokkur skæri innan teigs Burnley. Granit Xhaka gaf síðan Burnley-mönnum eitt stig með því að sparka boltanum í Nýsjálendinginn Chris Wood og af honum fór boltinn í netið.
Bæði lið fengu tækifæri til að stela sigrinum en inn vildi boltinn ekki. Téður Chris Wood skaut beint í Bernd Leno þegar hann slapp í gegn og Nicolas Pepe hitti ekki boltann þegar hann fékk frábært skotfæri innan teigs Burnley.
Undir lok leiks átti Pepe skot að marki Burnley, framhjá Nick Pope í markinu en Hollendingurinn Erik Pieters var mættur niður á línu og kom boltanum upp í slána. Andre Marriner, dómari leiksins, taldi boltann hafa farið í höndina á Pieters og dæmdi víti og gaf honum rautt spjald. Eftir nánari skoðun í VAR, hætti hann við vítið og leikurinn hélt áfram. Fleiri urðu mörkin ekki og fara bæði lið heim með sitthvort stigið í pokanum.