Hörður Björgvin lék allan leikinn í 2-0 sigri CSKA Moskvu á Khimki í rússnesku úrvalsdeildinni í dag. Arnór Sigurðsson byrjaði á bekknum hjá CSKA en fékk að spila seinustu 20 mínútur leiksins.
Það var Venesúelamaðurinn Salomon Rondon sem kom CSKA-mönnum yfir á 38. mínútu úr vítaspyrnu. Glöggir muna eftir honum þegar hann spilaði hjá West Brom og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni. Hann er á láni hjá CSKA frá kínverska liðinu Dalian Professional FC. Þetta var aðeins hans annar leikur fyrir félagið.
Það var síðan gamall liðsfélagi Gylfa Þórs hjá Everton, Nikola Vlasic, sem skoraði seinna mark CSKA á 52. mínútu eftir stoðsendingu Rondon.
Frábær sigur og eru þeir farnir að anda í hálsmálið á toppliði Zenit sem er aðeins tveimur stigum á undan, þó með leik til góða.