Á fundi aga- og úrskurðarnefndar þann 3. mars var leikmaður Léttis, Andri Már Ágústsson, úrskurðaður í þriggja leikja bann í keppnum á vegum KSÍ vegna atviks í æfingaleik Léttis og KH (mfl. karla) þann 14. febrúar. Úrskurðaði nefndin um leikbannið með vísan til ákvæðis 6.2. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Samkvæmt frétt Fótbolta.net var málið svona. „Samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net er leikmaðurinn dæmdur fyrir ofbeldisfulla hegðun í garð mótherja. Dómari leiksins og KH ákvað að rétt væri að tilkynna atvikið til KSÍ,“ segir á vef Fótbolta.net.
Um var að ræða æfingaleik en Léttir leikur í neðstu deild á Íslandi.
Andri Már er þrítugur knattspyrnumaður en hann lék fyrst með Létti árið 2010. Auk þess hefur hann spilað með Fenrir og ÍR hér á landi en Léttir er varalið ÍR-inga.
Reglugerð KSÍ
6.2. Jafnframt úrskurðar nefndin um önnur mál sem framkvæmdastjóri KSÍ eða aðrir, sem til þess hafa heimild, beina til nefndarinnar eða nefndin telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna knattspyrnuleikja sem fram fara á Íslandi enda fjalli ekki aðrir um þau.
Leikbann Andra Más tók gildi við uppkvaðningu úrskurðar.