Bryant var atvinnumaður í körfubolta frá 1996 til 2016 og vann fimm meistaratitla með Los Angeles Lakers. Hann er af mörgum talinn einn af bestu leikmönnum deildarinnar fyrr og síðar.
Lát hans og minningarathafnirnar um hann sýndu vel hversu mikla þýðingu hann hafði haft fyrir körfubolta um allan heim. Michael Jordan, sem er af mörgum talinn besti körfuboltamaður allra tíma, var greinilega djúpt snortinn þegar hann kom fram á minningarathöfn um Kobe og sagði: „Þegar Kobe Bryant dó, þá dó hluti af mér.“
Nýlega sagði Kyrie Irving að rétt væri að setja skuggamynd af Bryant á merki NBA og skipta þannig skuggamyndinni af Jerry West, fyrrum leikmanni Los Angeles Lakers, út. „Mér er sama hvað aðrir segja. Svartir kóngar byggðu þessa deild,“ skrifaði hann.
Hann er greinilega ekki einn um þessa skoðun því nú hefur á fjórðu milljón manna skrifað undir áskorun um þetta.