The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að bensín- og dísilbílar þurfi miklu meira hráefni en rafbílar á líftíma sínum. Á líftíma liþíumrafhlöðu, sem er notuð í rafbíl, fara um 30 kíló af hráefnum til spillis þegar búið er að taka endurvinnslu með í reikninginn. Hvað varðar bensín- og dísilbíla þá fara 17.000 lítrar af olíu til spillis á líftíma bílanna.
Þessar niðurstöður eru byggðar á greiningu Transport & Environment (T&E). The Guardian segir að hlutfallslegur útreikningur á því hráefni sem þurfi til að búa til bíla sýni að bensín- og dísilbílar krefjist að minnsta kosti 300 sinnum meira hráefnis en rafbílar.
Framleiðsla rafbíla kallar á meiri vinnslu ákveðinna málma, til dæmis liþíums og kóbalts. T&E segir að áhrif olíuvinnslu, sem er notuð í eldsneyti, séu meiri en áhrif málmvinnslunnar.