Nat Phillips varnarmaður Liverpool var ósáttur með Jurgen Klopp og stjórnendur Liverpool þegar þeir leyfðu honum ekki að fara á láni síðasta haust.
Phillips taldi engar líkur á því að hann fengi tækifæri hjá Liverpool, þessi 23 ára varnarmaður vildi fara frá félaginu til fá meiri reynslu. Tímabilið á undan hafði hann verið hjá Stuttgart í Þýskalandi.
Phillips hefur hins vegar fengið fjölda tækifæri, ástæðan eru meiðsli Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip. Þá hafa Fabinho og Jordan Henderson misst út leiki.
„Undir lok undirbúningstímabilsins, þá var ég á leið burt til að spila leiki,“ sagði Phillips.
„Það voru allir heilir heilsu og það var ekkert merki um það að ég gæti fengið að spila fyrir aðallið Liverpool á þesu ári.“
„Ég var pirraður þegar ég fékk ekki að fara, þetta hefur breyst hratt. Ég held að enginn hafi séð þetta fyrir, svona getur fótboltinn verið ótrúlegur.“