Nú stendur yfir undirskriftasöfnun á vefsíðunni avaaz.org þar sem þess er krafist að lagið verði dregið úr keppni og hafa mörg þúsund manns skrifað undir. Á vefsíðunni segir að lagið sé „hneykslanlegt fyrir kristið fólk“. Það eru samtök grískra guðfræðinga sem standa á bak við þessa kröfu. Kýpverski miðillinn Knews hefur eftir George Kyriacou, forseta samtakanna, að guðfræðingarnir vilja gjarnan að Kýpur sigri í keppninni „en ekki í nafni djöfulsins“. Hann segir að lagið sé „móðgun við eyru okkar og sál“ og endurspegli ekki menningu landsins.
Sky News segir að guðfræðingarnir séu ekki einu andstæðingar lagsins því hópur trúaðra framhaldsskólakennara hefur að sögn einnig krafist þess að það verði dregið úr keppni því í textanum sé ævilangur trúnaður og ást á djöflinum lofsömuð.
Kýpverska ríkisútvarpinu hefur verið hótað íkveikjum vegna lagsins og einn var handtekinn nýlega þegar hann fór inn á lóð ríkisútvarpsins til að mótmæla laginu. Hann er ákærður fyrir að hafa í hótunum við starfsfólk.
En ríkisútvarpið hefur ekki í hyggju að láta undan hótununum og talsmaður þess agði að textinn fjalli einfaldlega um „hina eilífu baráttu góðs og ills“ og unga konu sem er föst í mannskemmandi sambandi við mann „el diablo“.