Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur lagt bann við flugi dróna á Reykjanesinu vegna möguleikans á eldgosi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var á fjölmiðla rétt í þessu.
„Vegna hugsanlegra eldsumbrota á Reykjanesskaga og af öryggisástæðum vegna þyrluflugs og annarra starfa viðbragðs- og vísindamanna, hefur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lagt bann við flugi dróna á svæðinu sem markast af Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi, Krísuvíkurleið og Suðurstrandavegi,“ segir í tilkynningunni sem um ræðir.
Mikill viðbúnaður hefur verið meðal viðbragðsaðila í dag vegna frétta um mögulegt eldgos í Keili. Haldinn var blaðamannafundur vegna málsins í dag þar sem farið var yfir stöðu mála. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, sagði þó á fundinum að enginn væri í hættu ef ske kynni að eldgos kæmi.