Fjöldi nýrra smita er við að ná nýjum hæðum í landinu og sjúkrahúsin eru við það að láta undan álaginu sem heimsfaraldurinn veldur. Samkvæmt opinberum tölum hafa 257.000 manns látist af völdum COVID-19. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látist, rúmlega 500.000. Rúmlega 10,6 milljónir hafa smitast af veirunni í Brasilíu. Í gær voru 59.925 smit staðfest. Tæplega 210 milljónir búa í landinu.
Brasilískir ríkisstjórar tilkynntu í gær að þeir ætli að taka saman höndum um kaup á bóluefnum gegn kórónuveirunni og fara þar með fram hjá alríkisstjórninni sem ríkisstjórarnir telja að hafa brugðist allt of seint við og sé of lengi að hrinda bólusetningaáætlun sinni í framkvæmd.
Bólusetningar hófust um miðjan janúar en hraði þeirra er langt frá því að vera nægilegur til að hægt verði að uppfylla loforð ríkisstjórnarinnar um að allir verði bólusettir fyrir árslok.
Í síðustu viku voru sóttvarnaráðstafanir hertar í mörgum bæjum og ríkjum til að reyna að draga úr álaginu á heilbrigðiskerfið.
Í grein, sem vísindamenn og læknar birtu í The Wall Street Journal, í gær vara þeir við nýju og ágengu afbrigði veirunnar en það á rætur að rekja til Amazon. Þeir telja að afbrigðið, sem nefnist P.1, eigi sök á þeirri miklu aukningu dauðsfalla sem hefur orðið víða í Suður-Ameríku og því að fleira ungt fólk smitast nú af veirunni. P.1 er á milli 1,4 til 2,2 sinnum meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar sem hafa fundist í Brasilíu. P.1 er að auki 25 til 61% líklegra til að smita fólk sem hefur áður verið smitað af öðru afbrigði veirunnar. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar að sögn The Wall Street Journal.