Adama Traore, leikmaður Wolves í ensku úrvalsdeildinni, fer heldur óhefðbundnar leiðir til þess að verjast ágangi varnarmanna andstæðinga sinna innan vallar.
Til þess að koma í veg fyrir að andstæðingurinn nái á sér taki, makar Traore á sig barnaolíu til þess að ekki verði eins auðvelt fyrir andstæðinginn að toga í hann og hægja á honum.
Traore er þekktur fyrir hlaupahraða sinn og vafalaust reyna varnarmenn allar leiðir til þess að hægja á honum.
Hugmyndin að því að maka á sig barnaolíu kemur frá læknateymi Wolves en Traore var farinn að kenna meins í öxl eftir sífellda hörku varnarmanna.
„Það er erfitt að stoppa Adama Traore, mjög erfitt og þetta hjálpar varnarmönnum ekki við það verkefni. Hann verður mjög sleipur og í kjölfarið getum við nýtt hraða hans og hæfileika,“ sagði Nuno Espirito Santo, knattspyrnustjóri Wolves.