Chelsea fengu Manchester United í heimsókn á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni í gær. Thomas Tuchel var að stýra Chelsea í níunda skiptið og á hann enn eftir að tapa með liðið. Liðin gerðu 0-0 jafntefli í fyrri leik sínum á leiktíðinni og voru það einnig úrslitin í gær.
Stærsta atvik leiksins var í fyrri hálfleik þegar boltinn fór í hendina á Callum Hudson-Odoi innan vítateigs Chelsea. Dómarinn virtist ekki sjá atvikið og leikurinn hélt áfram en var að lokum stöðvaður fyrir VAR-skoðun. VAR taldi hins vegar ekki vera ástæða til að dæma vítaspyrnu og leik því haldið áfram.
Erfiðleikar United gegn stóru liðum deildarinnar heldur áfram, liðið hefur ekki unnið eitt af stóru sex liðunum á þessu tímabili.
United hefur aðeins skorað eitt mark gegn stóru liðunum en það kom í 1-6 tapi gegn Tottenham, það mark kom úr vítaspyrnu.
Í síðustu fjórum leikjum gegn stóru liðunum hafa leikirnir endað með markalausu jafntefli. United á stórleik aftur um næstu helgi þegar liðið heimsækir Manchester City.