Tottenham tóku á móti Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag á Tottenham Hotspur Stadium. Gareth Bale var í byrjunarliði Tottenham en þetta var aðeins þriðji leikurinn sem hann byrjar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.
Það tók Bale aðeins 68 sekúndur að skora fyrsta mark leiksins þegar hann potaði boltanum auðveldalega framhjá Nick Pope í marki Burnley eftir frábæra sendingu Heung-Min Son.
Næstur á blað var Harry Kane en hann skoraði eftir háan bolta í gegn frá téðum Gareth Bale. Bale kominn þá með mark og stoðsendingu eftir aðeins þrjár mínútur. Þriðja markið kom svo á 31. mínútu þegar boltinn datt fyrir Lucas Moura innan teigs og skoraði hann auðveldlega. Staðan var því 3-0 fyrir heimamenn í hálfleik.
Gareth Bale var síðan aftur á ferðinni á 55. mínútu þegar hann átti frábært skot í stöngina og inn. Fleiri voru mörkin ekki og frábær sigur hjá Tottenham sem sitja í 8. sæti deildarinnar en Burnley fara heim með núll stig og eru í 15. sæti, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.