Úlfarnir heimsóttu Newcastle-menn á St. James’ Park í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þegar blásið var til hálfleiks var staðan enn 0-0. Lítið að frétta í þessum fyrri hálfleik.
Newcastle-menn voru ekki lengi að byrja seinni hálfleikinn og skoruðu strax á 52. mínútu. Þá skallaði Jamal Lascelles fyrirgjöf varamannsins Ryan Fraser í netið. Úlfarnir jöfnuðu svo metin á 73. mínútu þegar Ruben Neves stangaði fyrirgjöf Pedro Neto framhjá Dubravka í marki Newcastle. Dubravka var með hendi á boltanum en var ekki nógu sterkur til að koma boltanum í burtu.
Mikið jafnræði var á milli liða og skiptust þau á að sækja en að lokum náði hvorugt lið að skora sigurmarkið og endaði leikurinn því 1-1.