Leeds United mætti Aston Villa-mönnum á Elland Road, heimavelli sínum, í dag. Leikurinn endaði rétt í þessu og fóru leikar svo að Aston Villa hafði betur með einu marki gegn engu.
Það var Hollendingurinn Anwar El-Ghazi sem skoraði eina mark leiksins á 5. mínútu. Ollie Watkins átti misheppnað skot sem El-Ghazi tók á móti og skilaði í netið. Leeds-liðar vildu fá rangstöðu en ekkert var dæmt og staðfesti VAR þá ákvörðun.
Leikurinn einkenndist af mikilli hörku og ótrúlegt að enginn hafi fengið rautt spjald í leiknum. Mateusz Klich var nálægt því að vera rekinn útaf þegar hann tók John McGinn niður þegar hann var að hefja skyndisókn en hann hlaut eingöngu tiltal frá dómara leiksins.