Manchester City og West Ham United mættust í dag í 26. umferð Ensku úrvalsdeildarinnar. Fyrir leikinn var Manchester City á toppnum með 59 stig, 10 stigum meira en Manchester United í öðru sæti, en West Ham með 45 stig í fjórða sæti.
Leikurinn var afar jafn en það voru City-menn sem byrjuðu betur og skoruðu fyrsta mark leiksins eftir 30 mínútna leik. Þá skallaði miðvörðurinn Ruben Dias fyrirgjöf Kevin De Bruyne í netið. Darren Randolph, markvörður West Ham var með fingur á boltanum en skallinn var fastur og endaði í markinu.
West Ham-menn voru ekki á þeim buxum að gefast upp og á markamínútunni, þeirri 43., jafnaði Michail Antonio metin. Coufal, vængbakvörður West Ham, átti gott hlaup og gaf hann á Jesse Lingard sem átti skot sem var á leiðinni framhjá en Antonio stýrði boltanum í netið. Staðan var því jöfn, 1-1, í hálfleik.
West Ham-menn áttu góð færi til að skora sigurmarkið í seinni hálfleik en inn vildi boltinn ekki og John Stones skoraði sigurmark Manchester City á 68. mínútu. Riyad Mahrez átti góða sendingu út í teig, beint á John Stones, sem skilaði boltanum í markið. Fleiri voru mörkin ekki og juku City-menn því forskot sitt í 13 stig þegar þeir eiga eftir að spila 12 leiki.