Hann á það dapurlega met að hafa setið lengst allra á bak við lás og slá í Bandaríkjunum. CNN og fleiri miðlar skýra frá þessu. Hann var aðeins 15 ára þegar hann lenti i fangelsi árið 1953 og þar sat hann þar til nýlega og afplánaði lífstíðarfangelsisdóm. Hann eyddi sem sagt stórum hluta unglingsáranna í fangelsi og öllum fullorðinsárunum þar til nú.
Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi 1953 fyrir ránsmorð. Það var ekki fyrr en tæpum sjötíu árum síðar sem réttarvörslukerfið komst að þeirri niðurstöðu að dómurinn yfir honum bryti gegn stjórnarskránni. Ligon hefur alltaf neitað að hafa myrt nokkurn mann. Það var ríkisstjórinn í Pennsylvania sem lét hann lausan.
„Þetta er alveg nýtt fyrir mig. Þetta var ekki til þá,“ sagði Ligon þegar hann var laus úr fangelsinu og stóð úti á götu í Philadelphia og horfði á skýjakljúfana.
Hann á erfiða tíma í vændum. Engir af þeim ættingjum og vinum sem hann þekkti áður en hann lenti í fangelsi eru á lífi. Það eina sem hann hefur er ein frænka og hópur annarra langtímafanga sem hann kynntist í fangelsinu og hafa lokið afplánun refsinga sinna. Hann nýtur stuðnings samtakanna Youth Sentencing & Reentry Project (YSRP) sem munu aðstoða hann við að greiða reikningana sína, versla inn og annað sem hann þarf að gera. „Hann er ótrúlega ánægður og hissa á þeim breytingum sem hafa orðið. En hann saknar látinna ættingja sinna,“ sagði Eleanor Myers, sem er ráðgjafi hjá YSRP.
Í fangelsinu starfaði Ligon sem húsvörður og lærði að lesa og skrifa. Hann fylgdist með stríðum, fjármálakreppum, tískunni og uppreisnargjarnri æskunni í litla sjónvarpinu sínu.
Dómurinn yfir honum var kveðinn upp eftir að hann og fleiri unglingar fóru í ránsferð 1953. Tveir voru skotnir til bana og enginn vildi kannast við að hafa skotið þá, ekki heldur Ligon. Hann staðhæfði að sá sem hann skaut hafi lifað af. Dómstóllinn komst að annarri niðurstöðu og dæmdi hann í lífstíðarfangelsi. Honum var boðin reynslulausn 2017 gegn því að hann myndi verða undir eftirliti það sem hann ætti eftir ólifað. Það vildi hann og krafðist þess að fá fullt frelsi eða ekkert. Ekkert fékk honum haggað í þessu og það skilaði þeim árangri að á síðasta ári úrskurðaði dómari að dómurinn yfir honum hefði brotið gegn stjórnarskránni því ekki hefði mátt dæma ungling í lífstíðarfangelsi.