Ian Wright fyrrum leikmaður Arsenal segist greina meiri og meiri pirring hjá Bruno Fernandes leikmanni Manchester United.
Fernandes er búinn að vera i herbúðum United í rúmt ár og hefur náð að bæta gengi liðsins mikið, Wright telur að samherjar Fernandes fari stundum í taugarnar á honum.
„Ég horfi á Bruno Fernandes og hann virðist pirra sig meira og meira á samherjum sínum, ég upplifi þetta þegar ég horfi á hann,“ sagði Wright.
Bruno er mikill leiðtogi innan vallar og oft má sjá hann bölva þegar hlutirnir ganga ekki upp. „Ég vil ekki að fólk túlki þetta á rangan hátt, ég er ekki að grafa undan honum. Hann er leiðtogi, hann er augljósi leiðtogi Manchester United. Það er mjög augljóst.“
„ Dennis Bergkamp var leiðtogi Arsenal innan vallar, ég sá hann aldrei verða svona pirraðan út í samherja sína. Ef hlutirnir ganga ekki upp þá verður Fernandes fljótur að pirrast.“