Hermann Hreiðarsson þjálfari Þróttar í Vogum er iðulega léttur í lund og veit fátt skemmtilegra en að glíma við vini og kunningja. Hermann er fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu og var þekktur fyrir það að vera harður í horn að taka innan vallar. Hermann átti farsælan feril sem atvinnumaður og er leikjahæsti Íslendingurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Í gær birtist myndband á Twitter síðu Þróttar þar sem liðið fór á glímuæfingu, þjálfarinn stóðst ekki mátið og fór að glíma við Gunnar Helgason einn harðasta stuðningsmann Þróttar.
„Eigandi Þróttar Vogum, geitabóndinn Gunnar Helgason skoraði Hemma Hreiðars á hólm. Það er fjör í Vogum,“ skrifar Marteinn Ægisson framkvæmdarstjóri Þróttar.
Hermann hefur rætt um það í viðtölum hvað honum finnst gaman að fara í gamnislag. „Það er alltaf gaman að sjá viðbrögð manna og kanna úr hverju þeir eru gerðir,“ sagði Hermann í viðtali við 24 Stundir árið 2008 og Hringbraut rifjar upp í dag.
„Slagsmál eru ein besta leiðin til að kynnast fólki og ég hef tileinkað mér þennan samskiptamáta hjá öllum liðum sem ég hef leikið með. Það hefur ekki allsstaðar fallið jafn vel í kramið.“
Átök Hermanns frá því í gær má sjá hér að neðan.
Eigandi Þróttar Vogum, geitabóndinn Gunnar Helgason skoraði Hemma Hreiðars á hólm 🙏🙏🙏
Það er fjör í Vogum 🤣🤣🤣#fotboltinet pic.twitter.com/dFfcxYAlbA
— Marteinn Ægisson (@MarteinnAegis) February 24, 2021