Manchester United, Chelsea, Manchester City og önnur félög þurfa að reiða fram ansi háa upphæð til að fá Erling Haaland framherja Dortmund í sumar.
Norski framherjinn hefur skorað 43 mörk í 43 leikjum fyrir Dortmund, 13 mánuðir er síðan þýska félagið keypti hann frá Red Bull Salzburg.
Haaland sem er tvítugur mun kosta 65 milljónir punda sumarið 2022, slík klásúla er í samningi hans.
Fjöldi félaga mun hins vegar hafa áhuga á að kaupa hann í sumar og er Borussia Dortmund tilbúið að nýta sér hann, þannig segja erlendi miðlar að Dortmund hafi sett 150 milljóna punda verðmiða á Haaland í sumar.
Dortmund ætlar að reyna að nýta sér þennan mikla áhuga og fá hæsta verðið fyrir framherjann, annars er ljóst að hann fer á miklu minni upphæð eftir rúmt ár.
Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United sagðst í gær halda sambandi sínu við Erling Braut Haaland framherja Borussia Dortmund. Haaland sem er tvítugur lék undir stjórn Solskjær hjá Molde og hafa þeir haldið sambandi síðan. „Þegar þú ert með krakka og leikmenn sem þjálfari, þá fylgist þú alltaf með þeim út ferilinn,“ sagði Solskjær.
Líkur eru á að Haaland fari frá Dortmund í sumar og það er talið næsta víst að hann fari ef Dortmund mistekst að komast inn í Meistaradeildina. „Ég held sambandi við Erling, það er frábært að sjá hversu öflugur leikmaður hann hefur orðið,“ sagði Solskjær.
Manchester United, Manchester City, Chelsea, Liverpool, Real Madrid, Barcelona og fleiri lið munu vafalítið reyna að kaupa Haaland, verði hann til sölu í sumar. „Hann er leikmaður Dortmund og ég óska honum góðs gengis, við sjáum hvað gerist í framtíðinni.“