Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að reiknað sé með að starfsfólk ráðuneytisins í Úganda, Rússlandi, Indlandi, Malaví og Kína komið hingað til lands í bólusetningu, það er að segja þeir sem ekki hafa þegar fengið COVID-19. Örfáir starfsmenn, með starfsstöðvar í Rússlandi og Afríku, hafa nú þegar farið í bólusetningu hér á landi.
Eftir bólusetningar verða allir útsendir starfsmenn ráðuneytisins í Afríku með mótefni gegn veirunni, annað hvort vegna bólusetningar eða afstaðinna veikinda. Þá eru 12 manns, starfsfólk og fjölskyldur þeirra, eftir og verður metið sérstaklega í hverju tilfelli hvort fólkið verður kallað hingað til lands til að fara í bólusetningu. Verður þá miðað við aldur, heilsufar, aðstæður í starfslöndum fólksins og bólusetningardagatalið hér á landi. Flestir úr þessum hópi starfa í Kína en þar er staðan nokkuð góð í tengslum við faraldurinn og segir Morgunblaðið að meiri áhætta fylgi því í raun fyrir fólkið að ferðast hingað til lands í bólusetningu eins og staðan er núna.
Almennt er starfsfólk utanríkisþjónustunnar og fjölskyldur þess bólusett í þeim ríkjum þar sem það starfar en það er háð því að þar séu í boði bóluefni sem Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt eða Lyfjastofnun Íslands og að gistiríkið bjóði erlendum stjórnarerindrekum upp á bólusetningu.
Hjá ráðuneytinu er það metið sem svo að það sé ódýrari kostur að flytja fólk hingað til lands í bólusetningu en að það veikist í gistiríkinu og þá þurfi jafnvel að flytja það hingað til lands eða annars lands til sjúkrahúsvistar.