Tólf hafa stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á morðinu sem framið var í Rauðagerði laugardagskvöldið 13. febrúar. Sjö eru í gæsluvarðhaldi og tveir eru í farbanni. Af þeim sem sitja í gæsluvarðhaldi er ein kona og sex karlmenn.
Að sögn Margeirs Sveinssonar, yfirlögregluþjóns, sem stýrir rannsókninni, er rannsóknin mjög umfangsmikil og er í raun enn á byrjunarreit. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.
20 til 30 manns vinna að rannsókninni og segir Margeir við Fréttablaðið að fyrstu vikuna hafi fólk jafnvel ekki sofið neitt. Gífurlega mikil vinna fer í að yfirheyra fólk af ólíku þjóðerni með aðstoð túlka og yfirfara tölvugögn sem haldlögð hafa verið.
Meðal þeirra sem sitja í gærsluvarðhaldi er albanskur maður sem grunaður er um að hafa skotið Armando Begirai til bana fyrir utan heimili hans í Rauðagerði. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er konan sem situr í gæsluvarðhaldi unnusta mannsins sem grunaður er um árásina.