Stór jarðskjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu nú laust fyrir klukkan 10. Fyrsti skjálftinn var af stærðinni 5,4 en honum fylgdu síðan margir eftirskjálftar, sumir þeirra voru í kringum sama styrkleika. Jarðskjálftarnir hafa nú vakið athygli í fjölmiðlum erlendis.
Fólk í Hafnarfirði, Grafarvogi, Árbæ, Kópavogi og víðar hefur greint frá því að hafa fundið fyrir skjálftanum. „Allar hurðarnar fóru á fleygiferð og kötturinn hljóp undir rúm,“ sagði til dæmis einn íbúi sem DV ræddi við sem staðsettur er á Reykjanesinu.
Ljóst er að jarðskjálftarnir hafa vakið töluverða athygli í fjölmiðlum erlendis. Aftenposten og ABC Nyheter í Noregi, Daily Express í Bretlandi og India.com í Indlandi eru á meðal erlendra fjölmiðla sem hafa fjallað um jarðskjálftann. Daily Express bendir á í sinni frétt að jarðskjálftar hér á landi séu oft minniháttar en að þó sé alltaf möguleiki á eldgosi.
Þá minnist blaðamaður Daily Express eldgossins í Eyjafjallajökli. Það gos varð heimsfrægt á afar skömmum tíma þar sem það hafði talsverð áhrif á flugumferð í kringum Evrópu í um þrjá mánuði. Svo virðist vera sem blaðamaðurinn hafi einhverjar áhyggjur af því að eldgos gæti komið upp hér á landi.
Miðað við nýjustu upplýsingar er það þó líklega ekki raunin. „Þetta er náttúrulega eldvirkt svæði en við sjáum engan gosóróa eins og er,“ sagði Sigríður Magna Óskarsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við DV um jarðskjálftana.
Lesa meira: „Við sjáum engan gosóróa eins og er,“ segir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu