Frakkarnir Hicham Makran og Yassine Bousseria voru dæmdir í 22 og 24 ára fangelsi. Höfuðpaurinn, Marokkómaðurinn Hicham El-Hanafi, var dæmdur í 30 ára fangelsi sem er hámarksrefsing.
Þremenningarnir byrjuðu að undirbúa hryðjuverk eftir mannskæðar hryðjuverkaárásir á skopmyndablaðið Charlie Hebdo og Bataclan tónleikasalinn í París í janúar og nóvember 2015. Hugðust þremenningarnir láta til skara skríða 2016. Þeir fengu leiðbeiningar frá leiðtogum Íslamska ríkisins í Sýrlandi en upp um þá komst því útsendari frá DGSI leyniþjónustunni blandaði sér í skipulagninguna.
Útsendarinn, sem gengur undir dulnefninu Ulysse, bar vitni fyrir dómi en án þess að rétt nafn hans kæmi fram og hann þurfti ekki að sýna andlit sitt. Hann sagðist hafa tekið við sem tengiliður Íslamska ríkisins í Frakklandi 2016. Leiðtogar hryðjuverkasamtakanna hafi beðið hann um að kaupa vopn fyrir nýja árás sem væri í undirbúningi. Hann tók við sem nemur rúmlega tveimur milljónum króna í kirkjugarði í París. Síðan gróf hann fjórar vélbyssur niður í skógi fyrir utan París. Franska leyniþjónustan vaktaði síðan staðinn allan sólarhringinn.
Þremenningarnir voru allir með hnitin fyrir staðsetningu vopnanna og reyndu að finna þau. Þeir ætluðu að láta til skara skríða 1. desember 2016 í París.
Tveir af öfgamönnunum fóru fram á milda dóma til að þeir gætu átt sér von um framtíð. En dómararnir urðu ekki við þessum umleitunum og dæmdu þremenningana í fangelsi. Tveir þriðju hlutar dómanna falla undir svokallað öryggistímabili en á því tímabili er ekki hægt að láta mennina lausa til reynslu.