Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur Dr. Football fullyrðir að Valur hafi boðið í Gísla Eyjólfsson miðjumann Breiðabliks. Talað er um ansi háa upphæð í því samningi. Íslandsmeistarar Vals hafa hug á að styrkja lið sitt.
Gísli Eyjólfsson hefur síðustu ár verið einn öflugasti miðjumaður efstu deildar á Íslandi. Valur hefur misst leikmenn af miðsvæði sínu í vetur.
„Þetta eru alltof miklir peningar miðað við íslensku deildina, þetta eru rúmlega árslaun verkamanns á Íslandi,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í hlaðvarpsþættinum í dag.
Talað var um að upphæðin var nálægt tíu milljónum íslenskra króna. „Við höfum ekki séð þessar tölur á milli félaga á Íslandi, þeir hafa misst Lasse Petry og svo fór Einar Karl í Stjörnuna. Þá vantar miðjumann.“
Breiðablik hafði ekki áhuga á að selja Gísla til Vals. „Það var takk en nei takk, Kópavogur myndi brenna ef Blikarnir myndu selja Gísla í Val. Það er statement hjá Val að bjóða þetta,“ sagði Kristján Óli.