Forráða- og stuðningsmenn Englandsmeistara Liverpool, bíða og sjá hvort meiðsli Jordan Henderson séu alvarleg. Leikmaðurinn þurfti að fara af velli á 29. mínútu í leik gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Henderson undirgengst læknisskoðanir í dag og útlitið er ekki gott ef marka má orð Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool.
„Þetta lítur ekki vel út, við þurfum að bíða og sjá,“ sagði Jurgen Klopp.
Liverpool hefur verið að glíma við mikil meiðslavandræði á tímabilinu, sér í lagi í öftustu línu þar sem Henderson hefur þurft að fylla í skarðið til þessa.
Virgil Van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip eru allir varnarmenn sem hafa þurft að glíma við meiðsli á þessu tímabili.