Í gær handtók lögregla tvo menn til viðbótar í tengslum við rannsóknina á morðinu í Rauðagerði um síðustu helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Nú eru tíu í haldi lögreglu vegna málsins, þar af átta í gæsluvarðhaldi.
Allir eru erlendir ríkisborgarar, fyrir utan einn sem er Íslendingur. Fram hefur komið að lögregla telji sig vita hver sé morðinginn.
Tilkynning lögreglu er eftirfarandi:
Tveir voru handteknir í aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær í tengslum við rannsókn hennar á manndrápi í austurborginni um síðustu helgi. Báðir eru erlendir ríkisborgarar, en ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim liggur ekki fyrir.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.