Real Madrid ætlar ekki að selja Martin Odegaard í burtu frá félaginu í sumar og fyrir því er aðeins ein ástæða ef marka má spænska fjölmiðla. Félagið ætlar að nota Odegaard sem beitu til þess að sannfæra Erling Haaland um að velja Real Madrid.
Búist er við að Haaland verði eftirsóttur í sumar og að félög verði klár í að borga meira en 65 milljónir punda, slík klásúla kemur upp í samningi Haaland eftir rúmt ár.
Odegaard er í láni hjá Arsenal þessa stundina en Real Madrid hefur ekki áhuga á að selja hann.
Dortmund er að berjast við að ná Meistaradeildarsæti í Þýskalandi, mistakist félaginu það er næsta víst að Haaland verður til sölu.
Mundo Deportivo segir að Real Madrid vilji halda í Odegaard til þess að auka líkur sínar á að krækja í einn besta knattspyrnumann í heimi.
Haaland er tvítugur en hefur á rúmu ári hjá Dortmund stimplað sig inn sem einn allra besti knattspyrnumaður í heimi.