„Arfur okkar frá Neanderdalsmönnum er tvíeggjað sverð,“ hefur Aftonbladet eftir Hugo Zeberg, vísindamanni hjá taugavísindadeild Karólínsku stofnunarinnar í Stokkhólmi, um þetta. Það eru vísindamenn hjá Karólínsku stofnuninni og Max Planck stofnuninni í Þýskalandi sem gerðu þessar uppgötvanir. Þeir komust að því að gen á litningi númer 3, sem eykur líkurnar á slæmum veikindum, væri komið frá Neanderdalsmönnum. Um helmingur íbúa í sunnanverðri Asíu er með þetta gen og sjötti hver Evrópubúi. En hins vegar er þetta gen varla að finna í Afríku og austanverðri Asíu.
„Það kom í ljós að þetta gen barst frá Neanderdalsmönnum í nútímamenn þegar tegundirnar blönduðust fyrir kannski um 60.000 árum síðan. Í dag er fólk, sem er með þetta gen, í þrisvar sinnum meiri hættu á að enda í öndunarvél ef það smitast af nýju kórónuveirunni sars–cov-2,“ sagði Zeberg í október þegar niðurstöður fyrri rannsóknarinnar voru kynntar. Hann gerði rannsóknina í samvinnu við Svante Pääbo hjá Max Planck stofnuninni. Nú hafa þeir félagar gert aðra uppgötvun tengda genum úr Neanderdalsmönnum en eins og fyrr segir veitir það gen vernd fyrir slæmum COVID-19 veikindum.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu PNAS. Samkvæmt þeim þá er um að ræða gen á litningi númer 12. Gen á þessu svæði litningarófsins stýra prótíni sem brýtur niður veirur og afbrigðið, sem við höfum erft frá Neanderdalsmönnum, er talið gera prótínið mun skilvirkara. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 20% minni líkur eru á að þeir sem eru með þetta gegn þurfi að fara í öndunarvél ef þeir veikjast af COVID-19. „Það sýnir sig að arfurinn frá Neanderdalsmönnum er tvíeggjað sverð. Þeir gáfu okkur genaafbrigði sem við getum verið þakklát fyrir en einnig önnur afbrigði sem við getum bölvað þeim fyrir,“ sagði Zeberg.
Nýfundna genið hefur sótt í sig veðrið síðan á síðustu ísöld og er nú í um helmingi allra sem búa utan Afríku.