Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar yfir Þórhalli Guðmundssyni miðli. Þórhallur var sakfelldur fyrir að hafa nauðgað tvítugum manni sem lá á nuddbekk hjá honum með því að fróa honum án samþykkis hans.
„Er ákærða gefið að sök nauðgun með því að hafa í umrætt sinn fróað brotaþola án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung og þannig misnotað sér það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða,“ sagði í ákæru.
Þórhallur áfrýjaði dómi Landsréttar á grundvelli laga um milliliðalausa sönnunarfærslu en engar vitnaleiðslur fóru fram fyrir Landsrétti í málinu. Vitnaleiðslur fóru hins vegar fram í héraðsdómi þar sem Þórhallur var einnig sakfelldur fyrir brotið. Í reifun Hæstaréttar segir:
„Þ var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa fróað A án hans samþykkis með því að beita hann ólögmætri nauðung með tilgreindum hætti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að enda þótt munnleg sönnunarfærsla hefði ekki farið fram fyrir Landsrétti í málinu hefði endurskoðun á sönnunarmati, þar á meðal mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar, verið í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála auk þess sem málsmeðferðin var ekki talin hafa brotið gegn rétti Þ til milliliðalausrar sönnunarfærslu.“
Einnig segir að brot Þórhalls sé alvarlegt en þó sé ekki ástæða til að þyngja refsingu hans sem er 18 mánaða fangelsi. En hann dæmdur til að greiða manninum 1,2 milljónir króna í miskabætur og allan sakarkostnað sem nemur hátt í tveimur milljónum króna. Á neðri dómstigum hafði Þórhallur verið dæmdur til að greiða manninum 800 þúsund krónur.
Málavextir eru reifaðir í dómi Hæstaréttar en þar kemur fram að þolandinn leitaði þann 17. mars 2016 til lögreglu og kærði Þórhall. Í texta dómsins segir að þolandinn hafi kynnst Þórhalli í kringum 2007 þegar Þórhallur hélt miðilsfundi. Hann hafi síðan sótt heilunartíma hjá honum en hann var meiddur í baki. Í heilunartímunum tókst góð vinátta með mönnunum en í ársbyrjun 2010 fór Þórhallur að sýna af sér kynferðislega hegðun. Síðan er lýst atvikinu þegar Þórhallur braut gegn manninum:
„Hann kvaðst hafa kynnst ákærða árið 2007 eða 2008 þegar ákærði hafi verið með miðilsfund í […] á […]. Hafi brotaþoli í framhaldi af því farið á miðilsfund sem ákærði hafi haldið í […]. Hafi ákærði boðið brotaþola eftir það að fara í heilun til hans, en á þessum tíma hafi brotaþoli verið í […] og verið meiddur í baki. Hafi brotaþoli farið reglulega í þessa tíma hjá ákærða og hafi þeir farið að ræða hin og þessi mál og hafi ákærði verið orðinn eins og góður vinur brotaþola. Hafi ákærði alltaf hringt að fyrra bragði og boðið brotaþola að koma heim til hans í heilun. Brotaþoli kvað að í ársbyrjun 2010 hafi ákærði farið að sýna af sér vafasama hegðun. Þegar hann hafi tekið á móti brotaþola hafi hann verið í bol og stuttbuxum eða náttbuxum. Þá hafi ákærði farið að taka brotaþola úr bolnum og teygja á honum. Ákærði hafi í einhver skipti beðið brotaþola að leggjast á nuddbekk í því skyni að fá líkama hans í jafnvægi. Þetta hafi hægt og hægt þróast í að brotaþoli hafi verið á brókinni og síðan hafi ákærði farið að klæða brotaþola úr henni. Í tvö skipti hafi það gerst að ákærði hafi rekist í eða rétt snert kynfæri brotaþola, kannski óvart að því er brotaþoli hélt. Þá kvað brotaþoli það hafa gerst einu sinni að ákærði hafi rúnkað honum þar sem hann lá nakinn á bekknum og hafi það staðið í um fimm mínútur. Brotaþoli kvaðst hafa frosið, síðan klætt sig og hafi þeir talað eitthvað saman. Hann hafi kvatt ákærða og einhvern veginn ekki áttað sig á því sem hefði gerst.“
Næst þegar mennirnir hittust var Þórhallur mjög kynferðislega örvaður. Eftir það hitti hann Þórhall ekki aftur en Þórhallur reyndi ítrekað að komast í samband við hann:
„Tveimur dögum síðar hafi brotaþoli ákveðið að hitta ákærða einu sinni enn þar sem hann hafi talið sig þurfa að fá staðfestingu á því hvað hefði gerst. Hafi ákærði spurt hvort brotaþoli vildi bekk eða stól og hafi brotaþoli valið stólinn. Hafi ákærði ítrekað beðið brotaþola að leggjast á bekkinn en það hafi endað með því að brotaþoli hafi lagst á dýnu. Brotaþoli kvað ákærða ekki hafa rúnkað brotaþola í þetta skipti en hann kvaðst hafa séð hvað ákærði hafi verið ógeðslega graður þegar hann hafi verið að teygja á honum. Kvaðst brotaþoli þá hafa áttað sig á því hvað væri í gangi. Hann kvaðst eftir þetta ekki hafa farið til ákærða en næstu daga á eftir hafi ákærði hringt eða sent SMS stanslaust en brotaþoli kvaðst ekki hafa svarað honum. Þá hafi ákærði þann 2. október 2010 sent honum Facebook skilaboð þar sem hann hafi boðist til að gefa honum áfengisflösku. Næstu mánuði hafi brotaþoli fengið hringingar úr leyninúmeri sem hann kvaðst ekki hafa svarað fyrr en sex til átta mánuðum síðar þegar hann hafi svarað hringingu ákærða sem hafi spurt mjög hrokafullur hvort hann hefði gert brotaþola eitthvað. Brotaþoli kvaðst hafa neitað því en beðið ákærða að láta sig í friði og síðan skellt á hann. Brotaþoli kvaðst ekki hafa heyrt í ákærða eftir þetta.“
Sekt Þórhalls í málinu hefur nú verið staðfest á þremur dómstigum, fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti.