Nokkur mál komu á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag, þar á meðal undarlegt mál í miðborginni í Ráðhúsinu. Þaðan barst lögreglu tilkynning um mann sem var að spreyja úr slökkvitæki inni í byggingunni. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvað manninum stóð til eða hverjir eftirmálar voru.
Í Fálkahlíð braust maður inn í bifreið og rændi bensínkorti. Aðilinn borgaði með téðu korti stuttu seinna. Því má ætla að málið hafi verið auðleyst og lítið mál fyrir lögreglu að finna gerandann.
Reiðhjólaþjófur lét greipar sópa við Langholtskirkju og rændi þar einu hjóli. Eigandi hjólsins fann þjófinn stuttu seinna á Facebook.
Tilkynnt var um reyk frá loftljósi í Safnaðarheimilinu við Seljakirkju. DV hafði fengið ábendingar um reykinn og hafði samband við slökkviliðið en að þeirra sögn voru þeir ekki kallaðir út vegna málsins.