„Við tímasetningu á síðasta sambandinu við síma John Snorra sem vitað er um, þá erum við sannfærð um að allir mennirnir þrír náðu á toppinn á K2 en eitthvað kom fyrir á leiðinni niður,“ segir í tilkynningu frá fjölskyldu fjallaklifursgarpsins John Snorra, sem eiginkona hans, Lína Móey, birtir á samfélagsmiðlum.
Mennirnir þrír, Ali, John Snorri, og Juan Pablo, eru nú taldir látnir og hafa pakistönsk yfirvöld formlega lýst því yfir.
Fjórði maðurinn í leiðangrinum, Sajid, sneri við eftir viðkomu í grunnbúðum 3, og komst heill á húfi frá leiðangrinum. Í yfirlýsingunni er því fagnað að hann er á lífi.
Í yfirlýsingunni er pakistönskum yfirvöldum þakkað fyrir framlag sitt til leitarinnar að mönnunum, einnig er yfirvöldum í Chile og Íslandi þakkað fyrir stuðninginn. Pakistanski herinn er sérstaklega lofaður fyrir hugrekki við leitina sem fór fram við afar erfiðar aðstæður.
Í yfirlýsingunni segir ennfremur: „Allir mennirnir þrír höfðu nægan vilja, getu og hugrekki til að skrá nöfn sín á spjöld sögunnar með því að ná á topp K2 að vetrarlagi.“
https://www.facebook.com/linamoey1/posts/10158410286717529