Í dag fór fram 164. upplýsingafundur almannavarna þar sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, svöruðu spurningum fjölmiðla.
Eins og kom fram fyrr í dag voru engin smit greind innanlands og er það sjötti dagurinn í röð sem engin smit greinast. Tvö smit voru greind á landamærunum en á morgun tekur við nýtt fyrirkomulag við landamærin þar sem farþegar þurfa að skila inn vottorði um neikvætt PCR-próf við komuna, sem ekki er eldra en 72 tíma gamalt. Einstaklingar sem koma hingað til lands þurfa samt sem áður enn þá að fara í fimm daga sóttkví og tvöfalda sýnatöku.
Fyrsta maí næstkomandi verður mögulega hægt að leggja niður sóttkví og einungis krafist neiðkvæðs PCR-prófs til að auðvelda ferðamönnum að koma til landsins. Samkvæmt Þórólfi eru aðgerðir Íslands á landamærum með þeim slakari þegar litið er til annara landa.
Þórólfur var spurður út í bólusetningadagatal og segir hann það koma vonandi út seinna í dag. Fleiri bóluefni eru að koma á markaðinn og gleðst Þórólfur yfir því en þá er mögulega hægt að flýta fyrir bólusetningu.
Þegar Þórólfur var spurður út í Nýsjálensku-aðferðina þar sem öllu er lokað um leið og það kemur upp smit þá segir hann að hann telji það ekki vera mögulegt á Íslandi, miðað við hvernig Íslendingar hafa brugðist við öðrum slakari tilmælum.
Von er á nýjum tillögum frá Þórólfi á næstu dögum um slakanir innanlands en hann tók ekki fram hverjar þær slakanir eru. Grímuskylda verður þó ekki felld niður miðað við orð Þórólfs. Farið verður í aðrar tilslakanir fyrst.