RÚV greindi frá því í gær að á fimmta tug manna hafi nú réttarstöðu sakbornings vegna vændiskaupa á höfuðborgarsvæðinu en mál þeirra komust upp eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu í lok síðasta árs. Lögreglan fylgdist með auglýsingum 11 vændiskvenna í aðgerðunum en miðað við auglýsingar vændiskvenna eru þær mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu.
Vefsíðan City of Love hýsir auglýsingar 136 vændiskvenna sem segjast vera staðsettar í Reykjavík. Á vefsíðunni auglýsa vændiskonur þjónustu sína, verð og birta myndir af sér í kynæsandi stellingum. Mikill meirihluti vændiskvennanna eru konur sem eru af erlendu bergi brotnar en þó eru nokkrar íslenskar konur sem auglýsa þjónustu sína á vefsíðunni.
„Jæja, ég er búin í fríi og er ready í einhvað fjör! Endilega hafðu samband baby og við gerum einhvað skemmtilegt,“ segir til að mynda ein íslenska konan í auglýsingu sinni á síðunni. „Ertu að leita að skemmtun, ef svo er hafðu samband við mig í síma eða sendu mér SMS og við getum gert einhvað skemmtilegt saman hvenær sem er.“
Íslensku konunar eiga það allar sameiginlegt að sýna ekki andlit sitt á vefsíðunni, konurnar sem eru af erlendu bergi brotnar sýna margar andlit sitt auk djarfari mynda af líkama sínum. Konurnar eiga flest allar það sameiginlegt að vera með íslenskt símanúmer sem hægt er að hafa samband við til að panta þjónustu hjá þeim. Sumar gefa upp netfang þar sem hægt er að ná í þær.
DV hafði samband við fjölda kvenna á síðunni en engin þeirra vildi tjá sig að svo stöddu.
Covid-19 faraldurinn hefur án efa breytt landslaginu í vændi hér á landi þar sem flestar konurnar koma að utan. Það tíðkast því í auglýsingunum þeirra að þær taki það fram að þær hafi farið í skimun fyrir kórónuveirunni og fengið neikvæða niðurstöðu.
Fjallað var ítarlega um vændi í Kveik á RÚV árið 2019. Lára Ómarsdóttir, þáverandi fréttakona á RÚV, sagði þá að vændi á Íslandi væri aðallega í miðbænum, þá einkum í íbúðum sem leigðar eru út skamman tíma í senn. „Þetta er aðallega í airbnb íbúðum niðri í bæ. Niðri í miðbæ, götum sem liggja nálægt Laugavegi. Aðallega þar. Einstaka er á hótelherbergjum,“ sagði Lára.
Þá sagði Lára að hún telji að íslenskar konur séu í miklum minnihluta miðað við þær erlendu. Það rímar við auglýsingarnar á City of Love en þar er mikill minnihluti vændiskvennana íslenskar.
Uppfært: 23. febrúar kl. 10:20:
DV hefur verið gert kunnugt að finna má gerviaðganga á síðunni City of Love sem kærðir hafa verið til lögreglu.