Þeir Sigurður Þorberg Ingólfsson og Bogdan Catalin Nebeleac voru dæmdir fyrir „sérstaklega hættulega líkamsárás“ í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Í dómnum kemur einnig fram að sonur Sigurðar hafi einnig tekið þátt í árásinni sem um ræðir.
Samkvæmt dómnum fór árásin fram í Laugardalnum í maí árið 2016. Þar segir að Sigurður hafi opnað hurð á bíl, ökumannsmegin, og slegið ökumanninn margsinnis með hamri í höfuð og víðs vegar um líkamann. Þá segir að Bogdan hafi opnað farþegahurðina og slegið farþegann ítrekað í höfuðið með hnúajárni. Bogdan sló einnig ökumanninn með hnúajárninu í andlitið þegar hann reyndi að verja farþegann fyrir höggunum.
Miðað við það sem kemur fram í dómnum voru brotaþolarnir par, maður og kona, þar sem maðurinn er titlaður sem sambýlismaður konunnar. Maðurinn var ökumaður bílsins en konan var farþegi. Maðurinn var marinn yfir enni, hægra og vinstra megin, með eymsli yfir nefbryggju, marinn á öxl og framhandlegg, með lítinn skurð á olnboga og minniháttar mar á vinstra mjaðmarsvæðinu. Konan hlaut eymsli yfir höfði sínu og hægri kinn.
Maðurinn segir að tveir af árásarmönnunum hafi verið Sigurður og sonur hans sem ekki er nafngreindur í dómnum. Maðurinn segir þá að á meðan Sigurður hafi lamið sig með hamrinum hafi sonur hans sprautað á hann með táragasi. Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi verið mjög óttasleginn og að hann hafi talið að Sigurður myndi ekki hætta fyrr en hann væri búinn að berja sig til bana með hamrinum.
Þeir Sigurður og Bogdan neituðu báðir sök fyrir dómi. Sigurður sagði til að mynda að hann og sonur hans hafi líklega verið heima hjá sér þegar árásin átti sér stað. Þrátt fyrir það voru þeir báðir sakfelldir fyrir árásina en í dómnum segir að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að fullyrðingar brotaþola varðandi árásarmennina hafi verið rangar.
„Framburðir beggja ákærðu í málinu ekki trúverðugir og verða framburðir þeirra ekki lagðir til grundvallar þegar komist verður að niðurstöðu í málinu,“ segir í dómnum.
Sigurður var dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árásina en Bogdan var dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Brotaþolar kröfðust þess að fá samtals eina og hálfa milljón í skaðabætur en þeim Sigurði og Bogdan var gert að greiða þeim samtals 650 þúsund krónur í skaðabætur. Þá var þeim einnig gert að greiða brotaþolum samtals 400 þúsund krónur í málskostnað.