fbpx
Föstudagur 07.febrúar 2025
Fréttir

Segir starfsmenn barnaverndar leika lausum hala – „Þetta er alvarleg meinsemd sem þarf að taka á“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 17. febrúar 2021 12:30

Einar Gautur Steingrímsson. Mynd: Lausnir lögmannsstofa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég þekki til máls sem minnti mig meira á barnsrán en barnavernd. Ég hélt að barnaverndarnefnd myndi taka í taumana. Hún gerði það ekki. Barnaverndarstofa sendi bréf um að þeir myndu skoða þetta á tíu mánuðum. Þá geta þeir ekki gert annað en að senda vinsamleg tilmæli,“ segir Einar Gautur Steingrímsson lögmaður í stuttu spjalli við DV.

Einar kallar eftir breytingum á umgjörð barnaverndamála. Hann segir starfsmenn barnaverndar hafa allt of frjálsar hendur í störfum sínum. Álit þeirra renni meira og minna gagnrýnislaust í gegnum barnaverndarnefndir enda sitji þar fólk í hlutastörfum. Barnaverndarstofa, sem er yfir barnavernd, hafi síðan ekki nægilegar valdheimildir til að grípa inn í.

Tekið skal fram að varðandi þau mál sem Einar þekkir til frá barnavernd að þá hefur hann ekki komið að þeim sem lögmaður.

Einar segir vissulega margt frábært fólk starfa og hafa starfað hjá barnavernd. En þar sé misjafn sauður í mörgu fé, eins og víðar. „Það er ekkert sem stöðvar starfsmenn í að leika lausum hala. Nefndarmenn hafa engan tíma til að skoða málin sjálfstætt af því þeir vinna annars staðar. Svo rennur þetta bara í gegn.“

Einar leggur til að stofnaður verði sérstakur fjölskyldudómstóll sem taki yfir barnaverndarmál. Skapa þurfi fullkomna fjarlægð milli barnaverndarnefndar og barnaverndar.

Í nýrri grein sem Einar hefur birt á Facebook-síðu sinni um, barnaverndarmal, þar sem hann rekur í stuttu en skýru máli hvernig barnaverndarkerfið virkar, segir hann:

„Niðurstaðan er því þessi; einstakir starfsmenn barnaverndar leika iðulega lausum hala. Stundum vinna þeir frábært starf en til eru alltof mörg dæmi um geðþóttaákvarðanir, valdníðslu, lygar og vanvirðingu á mannréttindum og mannlegri reisn. Stundum vinna þeir leynt og ljóst að því að börn sem eru vistuð tímabundið utan heimilis eigi ekki afturkvæmt þvert á lög og stjórnarskrá. Jafnvel hef ég séð hreina grimmd.“

Greinin er í heild sinni hér að neðan:

Barnaverndarnefndir

Ég hef heyrt mjög alvarlegar frásagnir af barnaverndarnefndum frá mörgum lögmönnum og sálfræðingum sem gjörþekkja til þessara mála. Frásagnir um lygar á hendur fólki í því augnamiði að það verði svipt forsjá barna sinna. Einnig frásagnir um hvernig farið sé offari. Þetta var svo alvarlegt að ég varð miður mín og leið illa. Ég ákvað þá að grafast fyrir um hvort orsaka væri að finna í lagaumhverfinu sjálfu.

Barnavernd fer í grunninn fram hjá starfsmönnum barnaverndar hvers sveitarfélags. Yfir þeim eru barnaverndarnefndir sem eru pólitískt kjörnar. Mjög misjafnt er hvaða hæfileikum nefndarmenn eru búnir en almennt getur þetta fólk, sem hefur mikið að gera á öðrum vettvangi, ekki sett sig inn í öll mál þótt verið sé að véla um örlög barna og fjölskyldna þeirra. Niðurstaðan er sú að starfsmenn barnaverndar leika oft lausum hala og þar er misjafn sauður í mörgu fé.

Þeir sem skipa nefndirnar, sveitarstjórnir, hafa ekki heimild eftir það til að skipta sér af málum. Eina eftirlitið er í höndum barnaverndarstofu. Þar kreppir skóinn. Því það er ekkert á milli lappanna í þeirri starfsemi þegar kemur að því að leiðrétta misfellur hjá barnvernd. Það er ekki við barnaverndarstofu að sakast. Henni eru bara ekki skaffaðar alvöru valdheimildir í lögum. Heldur ekki tæki og tól til verksins. Ráðuneytið getur ekkert gert annað en að anda ofan í hálsmálið á barnaverndarstofu sem það gerir ekki. Dómstólar eru oft barnslega einfaldir í trausti sínu á þetta starf enda fá þeir málin í áferðarfallegum búningi til sín.

Niðurstaðan er því þessi; einstakir starfsmenn barnaverndar leika iðulega lausum hala. Stundum vinna þeir frábært starf en til eru alltof mörg dæmi um geðþóttaákvarðanir, valdníðslu, lygar og vanvirðingu á mannréttindum og mannlegri reisn. Stundum vinna þeir leynt og ljóst að því að börn sem eru vistuð tímabundið utan heimilis eigi ekki afturkvæmt þvert á lög og stjórnarskrá. Jafnvel hef ég séð hreina grimmd.

Fjölmiðlar þora iðulega ekki að grípa í taumanna með alvöru umfjöllunum og yfir þessu grúfir þöggun eins og á tímum McCarthy en hugleysi í samfélaginu er nauðsynleg forsenda til að þessi ósköp þrífist.

https://www.facebook.com/einargautur/posts/10225547620946256

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Alfreð átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin

Alfreð átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Óveðrinu er sko ekki lokið: Rauðar viðvaranir taka aftur gildi

Óveðrinu er sko ekki lokið: Rauðar viðvaranir taka aftur gildi
Fréttir
Í gær

Sex manna hvolpasveit handtekin á Spáni

Sex manna hvolpasveit handtekin á Spáni
Fréttir
Í gær

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti
Fréttir
Í gær

Miðbæjarbúar skiptast í fylkingar eftir viðtal Íslands í dag við Ólaf og Esther – „Komin út fyrir allan þjófabálk“

Miðbæjarbúar skiptast í fylkingar eftir viðtal Íslands í dag við Ólaf og Esther – „Komin út fyrir allan þjófabálk“
Fréttir
Í gær

Sakar Ingu Sæland um hótanir í garð sjávarútvegsins

Sakar Ingu Sæland um hótanir í garð sjávarútvegsins