Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Annað dæmi sem Davíð nefndi var að 80 til 90 manns hafi skoðað blokkaríbúð á þriðju hæð fjölbýlishúss í Reykjavík. Hún seldist einnig yfir ásettu verði. „Við erum líka að sjá dæmi um staðgreiðslur. Þá eru engin lán tekin heldur er um að ræða beinar peningamillifærslur í fasteignaviðskiptum. Það er af því að vextir eru mjög lágir og fólk fer með peningana úr bönkunum og fjárfestir í steinsteypu,“ er haft eftir honum.
Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala, sagði að mikil eftirspurn sé eftir sérbýli og sé sú þróun ekki bundin við hverfi. Þegar ástandið sé venjulegt hækki ódýrustu eignirnar fyrst en sérbýli síðar. Nú sé staðan önnur. „Það gerðist ekki núna. Vaxtalækkunin styrkti stöðu millistéttarinnar en það skiptir líka máli að kaupmáttur er góður hjá stórum hluta þjóðarinnar, þrátt fyrir erfiðleika hjá mörgum. Fyrir vikið er stór hluti af fasteignakeðjunni að virka ágætlega,“ er haft eftir honum.