Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool og núverandi sérfræðingur Skysports, telur að félagsskipti Jamie Vardy frá Fleetwood Town til Leicester City árið 2012 séu þau bestu í sögunni.
Leicester keypti Vardy á 1 milljón punda árið 2012 og síðan þá hefur hann skorað 114 mörk í ensku úrvalsdeildinni, verið lykilmaður liðsins og átti stóran þátt í ævintýralegu gengi Leicester í ensku úrvalsdeildinni árið 2016 sem endaði með því að liðið varð Englandsmeistari.
„Ég er ekki hrifinn af því að lýsa því yfir að einhver eða eitthvað sé það besta í sögunni en ef við tækjum saman lista af bestu félagsskiptum sögunnar hver gæti skákað komu Jamie Vardy til Leicester?“ skrifaði Carragher í pistli sem birtist í The Telegraph.
Carragher telur að félagsskipti Jamie Vardy til Leicester skáki félagsskiptum á borð við Eric Cantona til Manchester United, Dennis Bergkamp til Arsenal og David Silva til Manchester City, svo dæmi séu nefnd.
„Sagan í kringum félagsskipti Vardy er einstök, hann gengur til liðs við Leicester fyrir 1 milljón punda frá neðrideildar liði og kemur öllum að óvörum. Þegar saga enskrar knattspyrnu verður sögð í framtíðinni verður talað um Leicester fyrir og eftir komu Vardy,“ skrifaði Jamie Carragher.