Tim Sherwood, fyrrverandi knattspyrnustjóri Tottenham, telur að sitt gamla félag geti unnið tvo titla á tímabilinu undir stjórn José Mourinho. Tottenham hefur ekki unnið titil í 13 ár.
Keppnirnar sem Sherwood telur að Tottenham geti unnið eru enski deildarbikarinn og Evrópudeildin. Tottenham er komið í úrslitaleik enska deildarbikarsins þar sem liðið mætir Manchester City og er komið í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar.
„Mourinho er vanur því að vinna titla og hann getur gert það hjá Tottenham. Þeir geta unnið enska deildarbikarinn og Evrópudeildina. Mourinho vinnur titla hvert sem hann fer og hann þarf að gera það hjá Tottenham, það er það sem stuðningsmennirnir vilja,“ sagði Tim Sherwood í viðtali á Talksport.
Sherwood, sem spilaði á sínum tíma 100 leiki fyrir Tottenham, væri hins vegar ekki til í að spila eftir uppleggi Mourinho inn á knattspyrnuvellinum, liðið sé of varnarsinnað.
„Ég hefði ekki viljað spila sem sóknarmaður í þessu liði,“ sagði Tim Sherwood, fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri Tottenham.