Á venjulegu laugardagskvöldi er oftast hangið heima og horft á mynd eða spiluð spil. Bryndís Jóhannesdóttir, grunnskólakennari, átti aðeins öðruvísi kvöld en flestir en var heima hjá sér með fjölskyldu sinni þegar mögnuð atburðarás fór í gang.
Hún hafði hringt í lögregluna fyrr um kvöldið en bjóst ekki við því að sérsveitin myndi koma og biðja hana og alla fjölskylduna um að fara út í bíl og frá húsinu.
„Sonurinn stökk í stuttbuxur og bol á meðan ógreiddur og ennþá áttavilltur kallinn fann bíllyklana. Við drifum okkur inn í bíl, bökkuðum í flýti frá húsinu og komum okkur fyrir aðeins neðar í götunni. Þar héngum við í bílnum í rigningu og myrkri og fylgdust með atburðarásinni,“ skrifar Bryndís en á meðan fóru sérsveitarmenn inn í húsið hennar.
„Við biðum gáttuð í bílnum. Nokkru síðar silaðist stór svartur sendibíll hljóðlega inn götuna. Sprengjusveitin var mætt á svæðið. Svartklæddur maður, enn betur brynjaður en þessir gráu og bæði með svarta grímu og svartan hjálm, vippaði sér út og að bílnum okkar. Nágrannar í gluggum bættust nú í áhorfendahópinn og sáu hvar brynjaðir sprengjusérfræðingarnir gengu að húsinu okkar. Annar þeirra dró á eftir sér, að því er virtist, þunga tösku á hjólum,“ en síðan yfirgáfu þeir húsið með töskuna með sér. Hættan var liðin hjá og Bryndís og fjölskylda gátu farið aftur inn til sín.
Það sem hrinti þessari ótrúlegu atburðarás af stað var að Bryndís hafði sent skilaboð á lögregluna vegna gamallar handsprengju sem þau áttu heima hjá sér og vildi hún vita hvort hún gæti hugsanlega verið virk. Hún bjóst ekki við því að kvöldið myndi enda svona en sérsveitin tók sprengjuna með sér og því missti Bryndís minjagrip sem faðir hennar hafði gefið henni.
https://www.facebook.com/bryndis.johannesdottir.5/posts/10158336114744069