Maðurinn sem myrtur var um helgina var „meðal annars“ skotinn í höfuðuð. Frá þessu greindi Vísir fyrr í morgun og vísar í ónafngreindar heimildir.
DV sagði frá því í gær að lögreglan hefði verið kölluð til seint á laugardag vegna andláts í Rauðagerði. Klukkan 3 síðdegis á sunnudag sagði lögreglan frá því í tilkynningu að karlmanni á fertugsaldri hefði verið ráðinn bani og að áverkar eftir skotvopn hefðu fundist á líki mannsins. „Rannsókn málsins er í algjörum forgangi hjá embættinu og er einn í haldi vegna hennar,“ sagði jafnframt í tilkynningunni.
Karlmaðurinn var svo í gærkvöldi úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur til föstudagsins 19. febrúar. Maðurinn var handtekinn í Garðabæ og er líkt og sá látni, erlendur ríkisborgari á fertugsaldri.
Þá hefur það vakið athygli að enginn nágranna kannast við að hafa heyrt skothvelli. Hefur það vakið grunsemdir um að hljóðdeyfir kunni að hafa verið notaður. „Ég og enginn hér urðum í raun vör við neitt nema aðgerðir lögreglu seint í gærkvöld,“ sagði nágranni í samtali við blaðamann DV í gærkvöldi. „Við erum búin að fara yfir þetta með lögreglu í dag og við verðum í raun ekki vör við neinn aðdraganda að þessu.“ Maðurinn sagðist sleginn yfir atburðunum. „Þetta er ekki gaman svona í næsta nágrenni við mann.“
DV spurði Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hvort morðvopnið hefði fundist og hvort grunur væri um að hljóðdeyfir hafi verið notaður við morðið. Margeir sagðist ekkert geta tjáð sig um rannsókn málsins umfram það sem þegar hefur komið fram í tilkynningum lögreglunnar. Margeir gat heldur ekki sagt hvenær niðurstöðu væri að vænta úr krufningu. Aðspurður hvort sú bið væri hamlandi í rannsókn málsins sagði Margeir svo ekki vera, enda geta bráðabirgðaniðurstöður legið fyrir áður en endanlegar niðurstöður réttarmeinafræðinga liggur fyrir.